Færsluflokkur: Bloggar
19.12.2009 | 21:07
Breytingar þarf að vanda betur
Fyrirvarinn til að gera víðtækar breytingar á tekjuskattinum núna var alltof lítill, enda eru framlagðar tillögur um þrepaskatt eiginlega hvorki fugl né fiskur. Þess vegna er réttara að þær breytingar sem gera þarf nú til þess að auka tekjur ríkisins byggist á gamla kerfinu: Breyta persónuafslætti og álagningarprósentu, halda hátekjuskattinum í lagfærðu formi og hugsanlega hækka barnabætur eða draga úr tekjutengingu þeirra til að hlífa barnafólkinu við of miklum skattahækkunum.
Allt of margir einblína á það að núverandi kerfi sé einfalt og skilvirkt. Það eru þó aðallega kostir í augum innheimtumannsins. Fyrir okkur hin skiptir mestu máli að kerfið sé sanngjarnt og réttlátt, og þar skortir mikið á í núverandi kerfi. Einfaldleiki þess gerir það nefnilega um leið að fremur groddalegu skattheimtuverkfæri. Þess vegna ætti ríkisstjórn jafnaðarmanna að nota næsta ár til að forma vandaðar og raunhæfar tillögur um víðtækan uppskurð á kerfinu. Til þess að nýtt skattkerfi verði sanngjarnt og réttlátt þarf það óhjákvæmilega að verða eitthvað flóknara en það sem við höfum búið við, en við eigum að ráða við að smíða okkur slíkt kerfi ekkert síður en nágrannaþjóðir okkar.
Breytingar á skattatillögunum | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
22.10.2009 | 23:41
Rangt svar á bls. 73/86, kafla 16
Í svari um barnabætur er gefin vægast sagt villandi mynd af íslenska barnabótakerfinu, að því er virðist í þeim tilgangi að leyna göllum þess og gefa af því fegraða mynd.
Sagt er að barnabætur séu greiddar vegna allra barna undir 18 ára aldri. Þetta er ekki rétt.
Rétt er, að vegna suma barna eru ekki greiddar neinar barnabætur, þ.e. þegar tekjutengingin er búin að þurrka þær út.
Sagt er að barnabætur séu "að hluta tekjutengdar. Þó fái allir foreldrar 61.192 kr. viðbót vegna barna yngri en 7 ára, óháð tekjum." Þessi framsetning er til þess fallin að draga fjöður yfir það að tekjutengingin er grundvallaratriði og helsta einkenni kerfsins.
Réttari framsetning væri: Barnabætur eru alfarið tekjutengdar, nema sérstök viðbót vegna barna yngri en 7 ára sem er óháð tekjum.
Síðan eru tíundaðar hámarksbætur, annars vegar til hjóna og hinsvegar til einstæðra foreldra (sem eru um 50% hærri). Þess er ekki getið að einungis sárafáir foreldrar njóta fullra bóta, og tekjutengingarnar eru ekki útskýrðar á neinn hátt. Til að gefa raunsæja mynd hefði þarna átt að gefa líka upp hversu háar bæturnar eru hjá fólki með meðaltekjur eða þá greiddar meðalbætur vegna hvers barns á Íslandi. Einnig hefði átt að lýsa reglunum um tekjutengingarnar, hvar skerðingarmörkin liggja og hverjar skerðingarprósenturnar eru.
En kannske þeir sem sömdu þetta hafi veigrað sér við því að lýsa þessu í öllum smáatriðum af því að þeir gerðu sér grein fyrir því að væntanlegum lesendum úti í Brüssel myndi finnast þetta séríslenska barnabótakerfi alveg fáránleg uppfinning.
Svör Íslands afhent í Brussel | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
1.9.2009 | 15:49
Betri þýðing ...
Þýðing Mbl.is á því sem kemur frá þýska fjármálaráðuneytinu er ekki sérlega vel heppnuð. Betri þýðing:
Í svari fjármálaráðuneytisins segir að stjórn Sambandslýðveldisins muni í tengslum við meðhöndlun aðildarumsóknar Íslands fylgjast stöðugt með því, hvort íslenska ríkisstjórnin virði alþjóðlega viðurkennda staðla á borð við bannið við mismunun. Ráðuneytið tekur fram að það eigi einnig við um meðhöndlun íslenska ríkisins á þýskum fjárfestum í ljósi íslensku bankakreppunnar. Í hugsanlegum aðildarviðræðum mun stjórn Sambandslýðveldisins taka viðeigandi tillit til framgöngu Íslands í þessum efnum.
Þetta segir að vísu nokkurnveginn það sama, en með nákvæmara orðalagi.
Þýsk stjórnvöld fylgjast með hvort Íslendingar virði reglur | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
16.6.2009 | 00:16
Bullfrétt á Stöð 2
Til upprifjunar þá gekk fréttin út á það, að Stöðin sagðist hafa heimildir fyrir því að þýsk stjórnvöld hefðu hótað því í bréfi til skilanefndar Kaupþings að þvælast fyrir aðildarumsókn til ESB ef Íslendingar höskuðu sér ekki við að borga þýskum sparifjáreigendum hjá EDGE. Þessar hótanir væru ástæðan fyrir því að tilteknu lagafrumvarpi hefði verið hraðað gegnum Alþingi.
Hverjum hugsandi manni mátti vera ljóst frá upphafi að þessi frétt var ekki trúverðug. Það hindraði samt ekki Guðlaug Þór í að blása sig út á Alþingi yfir því að þessum "mikilvægu" upplýsingum væri haldið leyndum fyrir viðskiptanefnd. Síðan létu Álfheiður Ingadóttir og Lilja Mósesdóttir ginnast til að taka undir málflutning Guðlaugs í viðtölum við Stöð 2, sem lagði einkennilega áherslu á að fylgja eftir þessari "frétt" sinni næstu dagana.
Í framhaldinu var heimtað að viðskiptanefnd, þar sem Álfheiður er formaður, fengi að sjá þessa pósta. Samt hafði viðskiptaráðherra fullvissað þingheim um að það væri af og frá að í þeim fælust hótanir af einhverju tagi. Enda væru Þjóðverjar ein helsta vinaþjóð okkar og ef þeir vildu koma alvarlegum skilaboðum á framfæri við okkur, myndu þeir örugglega ekki gera það í tölvupósti frá skrifstofumanni í ráðuneyti til skilanefndar Kaupþings. Það væri álíka sennilegt og að þeir myndu nota til þess flöskupóst frá Hamborgarhöfn.
Nú þegar póstarnir hafa verið gerðir opinberir ætti Stöð 2 eiginlega að biðjast afsökunar á því að hafa haft Þjóðverja fyrir rangri sök og vissa þingmenn að fíflum.
Bréf Þjóðverja til Kaupþings birt | |
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt |
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)