Vont útspil nýja formannsins

Morgunblaðið fjallaði í leiðara 2. apríl undir yfirskriftinni "Á ekki að sýna á spilin?" um það að stjórnarflokkarnir ættu að segja frá því hvernig þeir ætluðu að taka á vanda ríkissjóðs eins og formaður Sjálfstæðisflokksins hefði gert. Þeir ættu að sýna á spilin sín. Í leiðaranum segir m.a.: "Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, sagði í Zetunni, umræðuþætti á mbl.is á mánudag, að tekjutengja þyrfti bætur almannatrygginga í auknum mæli og nefndi barnabæturnar sem dæmi."

Þarna verður ritstjóranum illilega á í messunni. Barnabætur hafa nefnilega ekkert með almannatryggingar að gera, þær eru hluti af skattkerfinu og annars eðlis en bætur almannatrygginga. Reyndar held ég að þarna sé verið að leggja formanninum orð í munn sem hann sagði ekki. Hann talaði almennt um bætur og nefndi barnabætur sérstaklega en setti þær ekki í samhengi við almannatryggingar, enda hefði Það borið vott um fullkomlega óafsakanlega fáfræði. Honum er því enginn greiði gerður með þessari bjöguðu framsetningu Morgunblaðsins.

En burtséð frá rangtúlkun Morgunblaðsins er það aðalatriði í þessari umræðu, að aukning tekjutenginga barnabóta gerir nákvæmlega það sama og hækkun álagningarprósentu gagnvart barnafólki. Sjálfstæðisflokkurinn þrástagast nú á því að hann ætli ekki að hækka skatta, andstætt því sem hinir ætli að gera, en þarna er hann nú samt að boða skattahækkun. Hið furðulega við þetta er bara það, að hann vill eingöngu leggja aukna skattbyrði á barnafólk, enga aðra. Þessi viðbótarskattbyrði myndi bitna mest á barnafjölskyldum með miðlungstekjur og það veit hver maður að þar er ekki breiðu bökin að finna.

Þetta var því afskaplega óviturlegt útspil hjá formanninum nýja og ber ekki vott um pólitískt hugrekki eins og haldið var fram í Staksteinum 31. mars s.l. heldur einhverja allt aðra eiginleika.


« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Athugasemdir

1 Smámynd: Björn Birgisson

Sigmundur Ernir, ný stjarna á himni Samfylkingarinnar, nyrðra, býður sig m.a. fram til að tryggja framgang fjölskyldufólks. Ef ríkisstjórn SF og VG gerir ekkert sérstaklega fyrir barnafólk, hefst héðan útflutningur á börnum. Sjálfstæðisflokkurinn hugsar ekki um börn, hefur aldrei gert og mun aldrei gera. Börn skipta engu máli í atvinnulífinu, þar sem peningarnir verða til.

Björn Birgisson, 3.4.2009 kl. 02:20

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband